Stolt er ekki orð, sem á við um þjóðarmorð:
Pride er sameiginleg barátta fyrir frelsi
Fimmtíu og fimm ár eru liðin frá Stonewall uppreisninni, og Pride hátíðahöld eru fyrirhuguð í borgum um allan heim. En hverju er að fagna? Systkini okkar frá Palestínu ganga nú í gegnum hrottalegt þjóðarmorð af hendi síonistaríkisins Ísraels sem nýtur fjárstuðnings og vopnasendinga stjórnvalda á vesturlöndum. Alþjóðlega samstöðuhreyfingin með Palestínufólki, sem fer ört vaxandi, kallar eftir aðgerðum til að stöðva umsátur Ísraelshers um Gasa og þjóðarmorðið sem blasir við hinum 2,3 milljónum íbúa svæðisins. Við, hinsegin fólk, tilheyrum stolt þeirri hreyfingu.
Þar sem hinsegin fólk þekkir það vel að þurfa að berjast fyrir heilbrigðisþjónustu og húsnæði, og gegn fasískum stjórnmálamönnum sem reyna sífellt að þurrka út tilveru okkar í samfélaginu, er okkur ljóst að frelsi okkar helst ekki einungis í hendur við frelsi hinsegin Palestínufólks, heldur alls Palestínufólks — og í raun frelsi sérhvers sem býr undir oki nýlendustefnu.
„Hinsegin frelsi er ómögulegt undir aðskilnaðarstefnu, feðraveldi, kapítalisma og öðrum formum kúgunar. Mikilvægt er að beina spjótum að tengslum þessara kúgandi afla.” — Ghaith Hilal, AlQaws for Sexual & Gender Diversity in Palestinian Society
Pride á uppruna sinn að rekja til sjöunda áratugarins: ungir samkynhneigðir menn í San Francisco, sem vaknað höfðu til róttækrar pólitískrar vitundar við innrás Bandaríkjanna í Víetnam, skipulögðu risavaxin mótmæli gegn stríðsrekstri, og samfélög hinsegin fólks — með trans konur í fararbroddi — börðust gegn lögregluáreiti og -ofbeldi á Compton’s Cafeteria og Stonewall Inn. Útfrá þessum rótum spyrnum við áfram fótum við ofbeldi og kúgun, hvar sem slíkt á sér stað.
Síðastliðna tíu mánuði hefur heimurinn orðið vitni að þjóðarmorði Ísraels á Gasaströndinni. Ásetningur Ísraels er skýr — og þarlend stjórnvöld hafa ekki hikað við að skýra frá honum, opinberlega og blygðunarlaust. Aðgerðir ísraelska hersins á Gasa hafa valdið eyðileggingu af slíkri stærðargráðu að ómögulegt er orðið að halda utan um tölur yfir fjölda látinna. Þrátt fyrir fyrirmæli Alþjóðadómstólsins (ICJ), þess efnis að Ísrael bindi tafarlaust endi á innrásina í Rafah og þær aðgerðir sem leiði til þjóðarmorðs, afléttir Ísrael hvorki umsátrinu né lætur af linnulausum sprengjuárásum sínum. Þannig heldur meira en 76 ára arfleið nýlendustefnu, landráns og ofbeldis síonista gegn innfæddu Palestínufólki áfram órofin.
Grimmdarverk Ísraels, umfang þeirra og hryllingur, skapa nú sífellt verri skilyrði fyrir Palestínufólk hvarvetna. Grimmdarverkunum er haldið gangandi með stöðugum fjárhagslegum, hernaðarlegum, diplómatískum og pólitískum stuðningi vestrænna valdhafa, auk alþjóðlegra stofnana og stórfyrirtækja. Og á sama tíma og vestræn stjórnvöld haggast hvergi í ómannúðlegum stuðningi sínum við Ísrael skera þau upp herör gegn þeim sem þora að mótmæla þjóðarmorðinu heima fyrir.
Rétt eins og hinsegin fólk um allan heim stendur hinsegin fólk í Palestínu frammi fyrir margþættri mismunun og kúgun. Í sérhverju nýlenduríki bitna þessi kúgunarkerfi verst á innfæddum konum, hinsegin fólki og fólki með óhefðbundna kyntjáningu — og sér í lagi þeim sem tilheyra nokkrum eða öllum hópunum í senn. Það er ómögulegt að takast af alvöru á við ofbeldi og kúgun sem hinsegin fólk verður fyrir án þess að takast einnig á við þessar stærri formgerðir kúgunar.
Við getum ekki talað máli hinsegin fólks í okkar heimalöndum á meðan við styðjum þjóðarmorð Ísraels gegn Palestínufólki, hvort sem það er hinsegin eða ekki. Barátta okkar fyrir hinsegin réttindum og frelsi er samtvinnuð baráttunni sem fer fram á heimsvísu fyrir réttindum frumbyggja, réttindum kvenna, réttindum svarts og brúns fólks, og baráttunni fyrir loftslagsréttlæti.
„Þegar við styðjum Palestínu þýðir það ekki að við styðjum einungis Palestínu, heldur styðjum við baráttuna fyrir frelsi og lausn undan kúgun alls staðar í heiminum.“ — Angela Davis
Allt frá árinu 2005 hefur Ísrael markvisst notfært sér hinsegin réttindi, með „Vörumerkið Ísrael“ að vopni, í viðleitni til að breiða yfir aðskilnaðarstefnu sína. Í umfjöllun sinni um bleikþvott, frá árinu 2011, lýsir bandaríska fræðikonan Sarah Schulman því hvernig ísraelsk yfirvöld gefa sig út fyrir að vera hinseginvæn til að fela ofbeldið sem felst í hernámi Palestínu.
Það er bleikþvottur þegar Ísrael auglýsir Tel Aviv sem ferðamannastað fyrir samkynhneigða, án þess að taka fram að borgin er byggð ofan á palestínskum þorpum sem jöfnuð voru við jörðu og íbúarnir hraktir á brott og myrtir í þjóðernishreinsunum árið 1948. Það er bleikþvottur þegar hinsegin hermenn í ólöglegu hernámsliði Ísraels sprengja upp palestínsk heimili og veifa svo regnbogafánum ofan á rústunum.
Þessi aðferð Ísraels er þó annað og meira en einber markaðssetning miðuð að hinsegin fólki, heldur dregur hún einnig upp hómófóbíska mynd af Palestínu og öðrum arabalöndum í þeim tilgangi að réttlæta ofbeldi gegn Palestínufólki, þar með talið hinsegin Palestínufólki. Fræðikonan Jasbir Puar kallar þetta ‚hómóþjóðernishyggju‘.
Femínskir og hinsegin aktívistar sem standa með Palestínu sitja víða undir árásum og áreiti síonista, sem halda því fram að hinir fyrrnefndu séu útsettir fyrir ofbeldi af hendi Palestínufólks fyrir það eitt að vera konur og hinsegin. Samt eru ofbeldi, nauðganir og dauði oftar en ekki það sem síonistar óska Palestínufólki og þeim konum og hinsegin einstaklingum sem standa með Palestínu. Í Palestínu sætir hinsegin fólk eftirliti, hótunum og áreiti aðskilnaðarríkisins Ísraels. Til eru óteljandi vitnisburðir, skýrslur og skriflegar heimildir um kynferðisofbeldi sem Palestínufólk hefur þurft að þola gjörvalla 76 ára sögu landránsnýlendu- og aðskilnaðarstefnu Ísraels.
Með hjálp þrýstihópa, sem oft eru í slagtogi við hægrisinnuð og hómófóbísk samtök, hefur Ísrael haldið úti alþjóðlegri bleikþvottarherferð, til að mynda á viðburðum á borð við Eurovision og Pride.
Það styður við bleikþvottinn á stríðsglæpum Ísraels þegar hinsegin skipuleggjendur leyfa ísraelskum sendiráðum, þrýstihópum og fyrirtækjum, sem eru samsek um aðskilnaðarstefnu og hernám, að taka þátt í Pride-viðburðum. Við getum ekki leyft þessu að gerast. Baráttan gegn bleikþvotti svarar að hluta til ákalli Palestínufólks um sniðgöngu, fjárlosun og efnahagsþvinganir (BDS).
Við sækjum innblástur í ótal dæmi um slíka baráttu: frá hinsegin aktívistunum í Seattle sem stöðvuðu ísraelska áróðursherferð til hinsegin Palestínufólks og bandafólks þeirra í Chicago sem stóðu í vegi fyrir bleikþvotti á hinsegin ráðstefnunni Creating Change. Yfir 10.000 manns tóku þátt í fyrstu Internationalist Queer Pride hátíðinni í Berlín árið 2021, sem var skipulögð sem andsvar við bleikþvotti og andpalestínskum rasisma á Pride viðburðum meginstraumsins jafnt sem jaðarsins. Sam Smith hætti við að halda tónleika í Ísrael og Pride hátíðin í Lissabon neitaði sendiherra aðskilnaðarríkisins Ísrael um þátttöku. Yfir 4.000 hinsegin listamenn, -konur og -kvár hafa heitið því að „halda hvorki sýningar né taka þátt í opinberum viðburðum í Ísrael þar til Palestínufólk er frjálst.“ Meira en 300 hinsegin einstaklingar úr kvikmyndaiðnaðinum hafa lofað að taka ekki þátt í alþjóðlegu hinsegin kvikmyndahátíðinni í Tel Aviv (TLVFest) vegna bleikþvottaráforma aðstandenda hennar, en hátíðin er fjármögnuð af ísraelskum stjórnvöldum. Og allt að 70 hinsegin samtök kölluðu eftir sniðgöngu á Eurovision 2024 vegna þátttöku Ísraels í keppninni á sama tíma og það fremur þjóðarmorð á Gasa.
Nú þegar trans fólk sætir árásum hægrisinnaðra stofnana og stjórnmála um allan heim, og Palestínufólk af öllum kynjum og kynvitundum berst gegn kúgun Ísraels, verðum við að taka höndum saman til að koma á réttlæti og sjálfsákvörðunarrétti fyrir öll.
Við, hinsegin hópar frá Palestínu og víðsvegar um heiminn, látum landránsnýlendu- og aðskilnaðarríkið Ísrael ekki komast upp með að notfæra sér hinseginleika okkar. Við neitum að vera gerð samsek í kúgun, í Palestínu jafnt sem annarsstaðar.
Við stöndum með Palestínufólki og styðjum andóf þess gegn nauðungarflutningum, landráni og þjóðernishreinsunum, sem og baráttu þess fyrir endurheimt lands síns — og fyrir framtíð sem laus er undan landránsnýlendustefnu síonista.
Stolt okkar felst í sameiginlegri baráttu sem við heyjum til að binda endi á kúgun, hernám og þjóðarmorð hvarvetna. Óeirðir gegn lögregluofbeldi voru fyrsta Pride hátíðin. Stolt okkar felst í baráttunni fyrir frelsi okkar allra. Frá ánni til hafsins: Palestína verður frjáls — og við öll verðum frjáls.
Með orðum hinnar goðsagnakenndu Donnu Personna úr Compton’s Cafeteria óeirðunum: „[Pride] er ekki partí. Verum til vandræða!“
VIÐ SKORUM Á HINSEGIN HÓPA AÐ GRÍPA TIL AÐGERÐA:
- Skipuleggið Palestínublokk í Gleðigöngunni (sendið myndir á queercoalitionforpalestine@riseup.net eða taggið okkur @queercoalitionforpalestine)
- Skipuleggið og/eða mætið á mótmæli, aðgerðir eða fræðsluviðburði um Hinsegin fólk í Palestínu eða bleikþvott
- Hafnið styrkjum frá Ísrael, neitið öllu samstarfi við stofnanir sem eru samsekar Ísrael, og neitið að hylja yfir, bleikþvo eða normalísera aðskilnaðarríkið Ísrael
- Vinnið að því að útiloka hinsegin hópa sem tengjast ísraelskum yfirvöldum frá alþjóðlegum samtökum á borð við ILGA
- Sniðgangið hinsegin túrisma í aðskilnaðarríkinu Ísrael og bleiþvottarviðburði á borð við Tel Aviv Pride og TLVFest
- Sniðgangið og hvetjið til fjárlosunar úr fyrirtækjum sem eru á lista BDS-hreyfingarinnar
- Svarið ákalli Queers In Palestine
- Látið orðið berast um þessa herferð!
Skrifið undir þetta ákall okkar til aðgerða
Til að skrifa undir þetta ákall þarf að senda okkur tölvupóst á queercoalitionforpalestine@riseup.net með eftirfarandi upplýsingum:
- Nafninu þínu (valkvætt)
- Nafni hópsins/samtakanna (nauðsynlegt)
- Tölvupóstfangi (nauðsynlegt)
- Samfélagsmiðlum og/eða heimasíðu (nauðsynlegt)